Mikið tjón varð þegar öflugur hitabeltisstormur gekk yfir Filippseyjar í september. Viljugar hendur björgunarfólks tókst þó að koma í veg fyrir að menningarverðmæti glötuðust í borginni Marikina, nefnilega skósafni fyrrverandi forsetafrúarinnar Imelda Marcos.
Skósafnið í Marikina hýsir yfir 800 pör sem áður voru í eigu þessa frægasta skósafnara heims. Mörg þessara skópara hefðu hæglega getað skemmst þegar regnvatn flæddi inn í safnið í hnéhæð á meðan stormurinn geisaði en fyrir tilstilli starfsfólks safnsins, sem að sögn Guardian settu björgunaraðgerðum á skóm Marcos í forgang, blotnuðu aðeins um 100 pör lítillega. Þau hafa nú verið þrifin og þurrkuð að nýju.
Þótt ófáar konur hafi ástríðu fyrir fallegum skóm eru þær fáar sem slá Imelda Marcos við enda er hún fræg að endemum fyrir ást sína á skóm. Þegar eiginmanni hennar var steypt af stóli í byltingu árið 1986 neyddist hún til að skilja eftir sig í forsetahöllinni 1.220 skópör úr safni sínu. Hún sneri aftur til Filippseyja úr útlegð í Bandaríkjunum árið 1991 og gaf 800 skópör til safnsins í Marikina þar sem almenningur og ferðamenn geta notið þeirra sem augnakonfekts.