Sextíu og þriggja ára gamall Rússi sem bjó á götunni, er farinn að gera það gott á rússneska hlutabréfamarkaðinum. Maðurinn, sem safnaði mörg þúsund flöskum, segir að drykkja Rússa hafi bjargað sér af götunni.
Þetta kemur fram Tvoi Den, sem er vinsælt rússneskt götublað. Þar er viðtal við Leonid Konovalov og mynd af honum í fjólubláum jakkafötum með fjólublátt skart. Hann segist hafa safnað um 2.000 flöskum á dag undanfarið. ár, eða frá því efnahagshrunið skall á sl. haust af fullum þunga.
„Rússar drekka örlítið meira vegna kreppunnar, og þetta hefur hjálpað mér að komast burt af þessum ruslahaug,“ segir Konovalov, sem starfaði áður sem verkfræðingur í iðnaðarborginni Kemerovo í austurhluta Síberíu. Hann segist hafa búið í algjöru hreysi undanfarin 20 ár.
Líkt og á Íslandi þá fæst skilagjald fyrir notaðar flöskur í Rússlandi. Um átta kr. fást fyrir hverja flösku í þar í landi. Sem fyrr segist hann hafa safnað um 2000 flöskum á dag, sem gerir um 16 þúsund kr. fyrir daginn. Það eru tæpar sex milljónir kr. á einu ári.
Konovalov segir að tvö af barnabörnum sínum hafi hvatt sig til að fjárfesta og taka áhættu á hlutabréfamarkaðinum. Hann segir að fyrstu viðskipti sín á markaðinum hafi verið hlutabréfakaup fyrir um 9 milljónir kr.