Lögreglan í Belgrad hefur ákært Boris Tadic, forseta Serbíu, fyrir brot á lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir ólæti á íþróttaviðburðum og öðrum mannfögnuðum. Tadic opnaði kampavínsflösku í stúkunni á leikvangi í Belgrad sl. laugardag til að fagna því að Serbar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku með því að leggja Rúmena að velli.
Lögreglan hefur nú ákært Tadic, Tomislav Karadzic, forseta serbneska knattspyrnusambandsins, Snezana Markovic-Samardzic, íþróttamálaráðherra og fleiri embættismenn fyrir að brjóta lög sem ætlað er að koma í veg fyrir opbendisverk og óviðurkvæmilega hegðun á íþróttaviðburðum.
Samkvæmt lögunum er neysla og sala áfengis bönnuð á íþróttaleikvöngum.
Tadic hefur þegar lýst því yfir að hann muni greiða sekt verði hann fundinn sekur um brot gegn lögunum.
Ofbeldisverk í tengslum við knattspyrnu hafa aukist umtalsvert í Serbíu að undanförnu.