Bresk afgreiðslukona hefur verið beðin afsökunar á því að hafa verið bannað að syngja án leyfis höfundarréttarhafa á meðan hún raðaði í hillur matvöruverslunar.
Sandra Burt, sem er 56 ára, vinnur í lítilli verslun í Clackmannanskíri. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að Burt hafi unun af því að syngja í vinnunni. Henni hafi eðlilega brugðið þegar þegar Performing Right Society (PRS), sem eru samtök lagahöfunda og flutningsrétthafa, hótuðu að sekta hana fyrir sönginn.
Samtökin hafa hins vegar kúvent í afstöðu sinni. Þau hafa sent Burt blómavönd og bréf þar sem hún er beðin afsökunar.
Burt, sem segist vera aðdáandi Rolling Stones, segir að þrátt fyrir aðvörun samtakanna hafi hún ekki getað hætt að syngja í vinnunni.
Fyrr á þessu ári höfðu samtökin samband við verslunina og bentu þeim á í aðvörunartón að verslunin yrði að fá sérstakt leyfi til að hafa útvarp í gangi nálægt viðskiptavinum.
Þegar eigandi verslunarinnar ákvað að losa sig við útvarpið hóf Burt að syngja.
„Ég byrjaði sjálf að syngja þegar ég var að raða í hillurnar, bara til að létta mér lund því það varð afar hljóðlátt í versluninni án útvarpsins,“ segir hún í samtali við BBC.
„Þegar ég frétti að PRS höfðu hótað málsókn vegna þess að við vorum ekki með flutningsleyfi, þá hélt ég að þetta væri grín og byrjaði að hlæja.“
„Svo fékk ég að frétta af því að ég gæti átt von á því að hljóta sekt upp á mörg þúsund pund. En ég gat ekki hætt að syngja.“
Málið olli miklu fjaðrafoki og sem fyrr segir hafa samtökin beðist afsökunar. „Við gerðum stór mistök og okkur þykir það mjög leitt,“ segir í bréfinu.
„Þú ert með fallega söngrödd og við óskum þér alls hins besta,“ segir jafnframt í bréfinu.