Flugfélagið AirAsia hefur ákveðið að gefa sveinsbarni sem fæddist um borð í einni af flugvélum þess í vikunni fríar flugferðir alla ævi. Móðir þess sem einnig flýgur frítt með flugfélaginu átti barnið í áætlunarflugi frá eyjunni Penang til Borneo á miðvikudag.
Raunar var flugvélinni snúið við til höfuðborgar Malasíu, Kuala Lumpur, þegar styttist verulega milli hríða hjá konunni. Rétt fyrir lendingu kom barnið hins vegar í heiminn. Mæðginin voru flutt á sjúkrahús í kjölfarið.
Flugfélagið var svo ánægt með þessa óvæntu fæðingu um borð að það ákvað að veita mæðginunum veglega gjöf.