Bandarískur karlmaður komst í kast við lögin á mánudag þegar hann hellti upp á kaffi heima hjá sér nakinn. Hann á von á því að verða kærður fyrir að afhjúpa sig með ósæmilegum hætti.
Eric Williamson, sem býr í bænum Springfield í Virginíu, var að búa til kaffi í eldhúsinu sínu þegar kona og sjö ára piltur gengu fram hjá eldhúsglugganum og sáu Williamson í allri sinni dýrð.
Konan lagði fram kvörtun við lögregluna sem handtók manninn skömmu síðar, að því er fram kemur á vef breska blaðsins Telegraph.
Williamson, sem er 29 ára, heldur því fram að hann hafi ekki gert nokkuð rangt, og að það hafi verið fyrir slysni að sést hafi í kynfæri hans.
„Já það er rétt, ég var ekki í neinum fötum. En ég var einn á mínu eigin heimili og nývaknaður. Það var myrkur og ég hafði ekki hugmynd um að einhver væri fyrir utan að horfa á mig,“ segir hann.
Williamson, sem á fimm ára gamla dóttur, segist vera góður faðir. „Allir vinir mínir, og hver sem er, vita þetta og það eru alls engar líkur á því að ég myndi nokkurntíma gera barni þetta.“
Hann segist ekki hafa talað við neinn og ekki séð neinn. Hann hafi aðeins ætlað að fá sér kaffi og verið afslappaður í sínu eigin eldhúsi.
Talsmaður lögreglunnar í Fairfax-sýslu segir að lögreglan hafi handtekið Williamson vegna þess að hann hafi viljað að fólk sæi sig.
Verði maðurinn fundinn sekur gæti hann átt von á því að verða dæmdur í ársfangelsi og sektaður um 2000 dali (um 250 þúsund kr.). Hann neitar allri sök og krefst þess að lögreglan greiði sér skaðabætur.