Ítalskur verktaki sem hefur verið færður úr fangelsi og í stofufangelsi hefur farið fram á það við ítölsk yfirvöld að hann fái að fara aftur í grjótið. Heima geri hann lítið annan en að rífast við eiginkonuna.
Santo Gambino, sem er þrítugur Sikileyingur, hlaut fangelsisdóm fyrir að losa hættulegan úrgang með ólöglegum hætti. Hann hefur verið færður úr fangelsi og í stofufangelsi í Villabate, sem er skammt frá Palermo höfuðstað Sikileyjar.
Ekki leið á löngu þar til Gambino heimsótti lögreglustöðina og óskaði eftir því að hann fengi að fara aftur í fangaklefann, því hann væri ávallt að rífast við konuna. Hún sakar hann um að skulda sér framfærslueyri, en saman eiga þau tvö börn.
Lögreglan ákærði hann fyrir að hafa yfirgefið húsið, en með því braut hann gegn dómnum sem hann hlaut. Lögreglan sagði honum jafnframt að drífa sig heim og sættast við eiginkonuna.