Forseti Venezuela, Hugo Chavez, hefur sagt almenningi að það sé óæskilegt að syngja í sturtunni. Mikill vatns- og orkuskortur er í landinu og á því fólk ekki að eyða lengri tíma í sturtunni en bráðnauðsynlegt er.
„Sumt fólk syngur í sturtu, er kannski í sturtu í hálftíma!“ sagði hann á ríkisstjórnarfundi sem sjónvarpað var til þjóðarinnar, að sögn Daily Mail.
Hann sagði síðan að hann ætlaði að beita sér fyrir orkusparnaði.
„Nei, krakkar,“ sagði hann. „Þrjár mínútur eru meira en nóg. Ég hef talið þetta, þrjár mínútur, og það er ekki vond lykt af mér.“ Hann hélt svo áfram og sagði að ef fólk ætlaði að slaka á í baði með sápuna innan handar og fyllti baðkerið, hvers konar kommúnistar væri það þá.
Aukin eftirspurn eftir rafmagni og skortur á fjárfestingum í Venezúela hefur orsakað rafmagnsleysi undanfarna mánuði. Er ástandið enn verra fyrir þær sakir að lítið hefur rignt sem veldur því að lítið vatn er í stíflunum sem notaðar eru til rafmagnsframleiðslu.
Chavez hefur þegar tilkynnt um ýmsar aðgerðir i orkusparnaðarmálum, svo sem þær að stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins skuli skera niður orkuneyslu um 20%.