Ung bandarísk kona var rænd á mánudagskvöld fyrir utan krá í borginni Springfield í Massachusettsfylki. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að aðeins nokkrum mínútum áður hafði hún flaggað stærðarinnar seðlabúnti og stært sig af peningum sem hún fékk út úr tryggingum. Um var að ræða 27 þúsund dollara, eða rúmar þrjár milljónir króna.
Lögregla í borginni leitar tveggja manna sem vopnaðir byssu rændu konuna. Þeir höfðu áður setið inni á kránni. Talsmaður lögreglunnar segir lexíu mega læra af reynslu konunnar. Að leggja skuli háar fjárupphæðir inn á bankareikning ellegar geyma fjármuni á vísum stað. Ekki gorta sig af þeim á krám. Það geti komið í bakið á viðkomandi.