Fólk, sem vill kaupa Fentimans Victorian límonaði í verslunum í Maine í Bandaríkjunum þarf að sýna skilríki til að sanna að það sé orðið 21 árs. Dómsmálaráðuneyti ríkisins hefur nefnilega skilgreint þennan aldargamla breska drykk sem áfengi en hann inniheldur 0,5% alkóhól.
Ráðuneytið skoðaði málið eftir að menntskælingur í Houlton keypti flösku af þessum eðla drykk og sá á miðanum, að hann inniheldur alkóhól.
Stjórnendur breska fyrirtækisins segja, að náttúrlegt gerjunarferli sé notað við framleiðslu drykksins en drekka þurfi um það bil 28 flöskur af Fentimans Victorian til að innbyrða sama áfengismagn og er í einum stórum bjór.