Íranskur flugmaður varð mjög áhyggjufullur þegar tæknibilun kom upp í flugi í gær. Flugmaðurinn brást við með því að segja farþegunum frá vandamálinu og í framhaldinu bað hann þá um að leggjast á bæn.
Eftir um sex klukkutíma töf á flugvellinum í Teheran í Íran tókst Boeing-vél flugfélagsins Aseman loks á loft. Hún varð hins vegar að snúa aftur vegna bilunar í tæknibúnaði. Þetta hefur íranska fréttastofan ISNA eftir einum flugfarþeganna.
Hann segir að vélin hafi hafið sig flugs kl. 00:15 að staðartíma og hafi orðið að lenda aftur á vellinum um 45 mínútum síðar.
Farþeginn segir að flugstjórinn hafi sagt við farþegana að vegna tæknilegrar bilunar hefði vélin orðið að snúa við. „Vinsamlegast biðjið,“ á flugstjórinn svo að hafa sagt.
Refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir hafa í áraraðir hamlað því að Íranir geti endurnýjað flugvélaflotann sinn, eða keypt varahluti í gamlar vélar. Því hafa fjölmörg alvarleg flugslys orðið í landinu undanfarinn áratug.
Bæði farþegavélar og herþotur landsins eru orðnar mjög gamlar og margar í mjög lélegu ásigkomulagi, ekki síst vegna viðhaldsleysis.
Eitt af verstu flugslysum í sögu landsins varð í júlí sl. þegar vél Caspian flugfélagsins fórst nærri Qazvin, sem er norðvestur af Teheran. Þá létust allir 168 um borð. Vélin var rússnesk af gerðinni Tupolev 154.