Það er varla hægt að takast óhönduglegar við að leggja bíl, en kanadískri konu á sjötugsaldri tókst á bílastæði í bænum Markham í Kanada í síðustu viku. Myndir af frammistöðu konunnar náðust á eftirlitsmyndavél og hafa nú verið settar á myndskeiðsvefinn YouTube eins og nánast allar myndir sem hreyfast.
Á myndunum sést þegar konan kemur akandi á dökkbláum BMW X5 inn á bílastæði. Hún sér autt stæði og ætlar að leggja bílnum þar. En í staðinn fyrir að stíga á hemlana virðist hún stíga á bensíngjöfina með óvæntum afleiðingum.
Eftir nokkurn tíma bakkar konan frá og ekur rólega í burtu af bílastæðunu án þess að gera vart við sig. Myndirnar úr eftirlitsmyndavélinni voru hins vegar sendar til lögreglu enda voru tveir bílar á bílastæðinu stórskemmdir á eftir.
Viku eftir þessa atburði sá eigandi annars bílsins, sem konan ók á, dökkbláa BMW bílinn á bílastæði í bænum. Hann hafði samband við lögreglu sem handtók konuna og ákærði hana fyrir umferðarlagabrot.
Að sögn vefjarins Yorkregion.com hafa yfir milljón manns skoðað myndskeiðið á YouTube.