Leit að ökumanni peningaflutningabíls sem stakk af í Lyon í Frakklandi með 11 milljónir evra hefur engan árangur borið.
Leitað hefur verið að manninum, sem er 39 ára, um land allt og var eftirlit á landamærastöðvum aukið í kjölfar ránsins. Jafnframt var gripið til sérstakra ráðstafana í öðrum löndum Schengen-svæðisins.
Maðurinn er einhleypur, 39 ára og heitir Tony Musulin. Hann hafði sótt peningasendingu í útibú Banque de France í Lyon snemma í fyrradag ásamt tveimur öðrum öryggisvörðum.
Er þeir höfðu viðkomu í öðrum banka og öryggisverðirnir tveir voru þar innandyra stakk bílstjórinn af með 11 milljónir evra. Er það mesta bankarán í sögu Frakklands.
Musulin hafði starfað í áratug hjá Loomis France, sem er í eigu sænskra aðila og fremst fyrirtækja í Frakklandi á sviði flutninga með peninga og önnur verðmæti. Hann var vel liðinn og hafði aldrei átt í neinum útistöðum.
Öryggisbíllinn fannst nokkrum klukkustundum seinna á afskekktum stað við brautarteina í Lyon, en hvorki hefur fundist tangur né tetur af Musulin eða milljónunum ellefu. Það eru allt nýir seðlar og hefur lögreglan engar upplýsingar um númeraröð þeirra.
Þá hafði hann tæmt bankareikninga sína dagana fyrir ránið og reyndar gott betur, því hann var kominn örlítið yfir á einum þeirra.
Þar sem engu ofbeldi var beitt við ránið og engan sakaði á Musulin einungis yfir höfði sér þriggja ára fangelsisvist, nái armur laganna á annað borð að góma hann.