68 ára gömul kona í Suður-Kóreu er himinlifandi þessa dagana vegna þess að henni tókst loks að ná skriflegu ökuprófi í 950. tilraun.
Cha Sa-soon tók prófið fyrst 13. apríl 2005 og hélt áfram í fjögur og hálft ár þar til henni tókst að ná tilskildum 60 stigum af 100. Hún hafði greitt alls sem svarar hálfri milljón króna í prófgjöld.
Cha þarf nú að standast aksturspróf til að geta fengið ökuskírteini og hún ætlar sér að ná því hvað sem það kostar.
Hún kveðst vilja fá ökuréttindi til að geta notað bíl til að selja grænmeti og fleiri vörur, að sögn suður-kóreska dagblaðsins Korea Times.
Cha býr í borginni Jeonju, um 210 km sunnan við Seoul, og staðfesta hennar hefur vakið mikla athygli þar.
„Ég tel að fólk geti náð markmiðum sínum ef það gefst aldrei upp,“ var haft eftir Cha í febrúar þegar hún hafði reynt 775 sinnum að ná skriflega prófinu. „Fólk þarf bara að vera sterkt og gera sitt besta.“ bogi@mbl.is