Bandaríska leyniþjónustan rannsakar nú hvort par hafi smyglað sér inn í Hvíta húsið í Washington og setið kvöldverðarboð, sem haldið var á þriðjudag til heiðurs forsætisráðherra Indlands.
Þeim Tareq og Michaele Salahi var ekki boðið í kvöldverðinn en þau birtu síðar myndir af sér í Hvíta húsinu á samskiptavefnum Facebook. „Við fengum þann heiður að vera í Hvíta húsinu í hátíðarkvöldverði til heiðurs Indlandi með Obama forseta og forsetafrúnni," skrifaði annað hjónanna á Facebook síðu þeirra.
En embættismaður í Hvíta húsinu segir, að hjónunum hafi ekki verið boðið í kvöldverðinn, þau hafi ekki verið á opinberum gestalista og aldrei vísað til borðs í tjaldinu á suðurflötinni við Hvíta húsið.
Að sögn blaðsins Washington Post eru Salahihjónin þekkt í samkvæmislífi Washington og Michaele kom m.a. fram í sjónvarpsþáttunum Real Housewives of Washington. Blaðið hafði eftir sjálfskipuðum talsmanni hjónanna að þau hefðu ekki verið boðflennur og telji það mikinn heiður að hafa fengið að taka þátt í svona virðulegri athöfn.
En Ed Donovan, talsmaður leyniþjónustunnar, staðfesti að verið væri að rannsaka málið. Hann sagði að hjónunum hefði ekki verið vísað á dyr en ekki væri vitað hvort þau hefðu fengið sæti við kvöldverðarborðið. Hann tók fram að fyllstu öryggisráðstafana hefði verið gætt og allir sem komu í samkvæmið hafi gengið gegnum öryggishlið.
Um var að ræða fyrsta heiðurskvöldverð sem Barack Obama hélt frá því hann tók við forsetaembættinu í janúar. Alls sátu 320 boðsgestir, hugsanlega 322, til borðs.