Dýrasta bifreið ítölsku lögreglunnar er ónýt eftir árekstur. Um er að ræða 30 milljóna króna Lamborghini sportbifreið. „Mamma mía!“ myndu eflaust margir Ítalir segja.
Áreksturinn varð skammt frá bænum Cremona á Norður-Ítalíu, en bifreiðin hafði verið þar til sýnis á samkomu námsmanna sem eru í atvinnuleit.
Fréttir herma að ökumaður lögreglubifreiðarinnar hafi orðið að taka krappa beygju til að komast hjá árekstri, þar sem önnur bifreið ók í veg fyrir hana. Lögreglubifreiðin hafnaði hins vegar á tveimur kyrrstæðum bílum og er sögð vera ónýt.
Tveir lögreglumenn voru í bílnum. Annar þeirra rifbeinsbrotnaði en hinn marðist.