Bandaríska tímaritið Passport Magazine, sem titlar sig sérfræðinga í leiðsögn um ferðalög samkynhneigðra virðist hafa sérstakt dálæti á Íslandi. Vefmiðill blaðsins býður nú lesendum sínum upp á samkeppni þar sem aðalverðlaunin eru óneitanlega góð eða eins og þeir orða það sjálfir: í verðlaununum er allt innifalið sem þarf í uppskrift að hinu fullkomna fríi á toppi heimsins: ferð til Íslands.
Ferðin er kynnt í samvinnu við Icelandair sem s.k. „gay getaway“ og eru blaðamenn Passport Magazine greinilega þeirrar skoðunar að Ísland sé sérstaklega vinveitt samkynhneigðum og því tilvalin áfangastaður fyrir þennan markhóp. Það sé auk þess framandi og bjóði bæði upp á framúrskarandi hátækni og æsispennandi ævintýri í ótrúlegu landsslagi. Auk þess finnist á Íslandi besta næturlíf í Evrópu og gamli bærinn sé sjarmerandi.
Verðlaunin fyrir einfaldan leik eru flug í boði Icelandair og tveggja nátta dvöl fyrir tvo í Reykjavík á nýju ári. Svo virðist því vera að orðspor íslensks umburðarlyndis muni í þessu tilfelli færa þjóðinni gjaldeyristekjur.