Vændiskonur,sem eiga aðild að dönskum samtökum kynlífsþjónustufólks, ætla að veita þátttakendum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í næstu viku í Kaupmannahöfn, ókeypis þjónustu meðan á ráðstefnunni stendur.
Susanne Møller, talsmaður Sexarbejders Interesseorganisation, segir við AFP fréttastofuna að um sé að ræða mótmælaðagerðir vegna áróðurs borgaryfirvalda í Kaupmannahöfn gegn vændi.
Borgin dreifði póstkortum á hótelum í Kaupmannahöfn þar sem sagði: Verið sjálfbær: kaupið ekki kynlíf. Borgin sendi einnig bréf til framkvæmdastjóra hótela og bað þá um að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að vændiskonur eigi fundi með viðskiptavinum á hótelherbergjum.
Vændiskonurnar brugðust hart við þessu. Møller segir, að allir ráðstefnugestir, sem komi til Kaupmannahafnar á loftslagsráðstefnuna geti notað póstkortin, sem dreift var á hótelin, sem greiðslu ef þeir panta á vefsíðu samtakanna. Einnig þurfa þeir að sína aðgöngumiða að Bella Center ráðstefnuhöllinni þar sem ráðstefnan fer fram.
„Við búumst ekki við að margir ráðstefnugestir nýti sér þetta tilboð en við viljum mótmæla því sem við teljum vera mismunun," segir Møller og bætir við að tilboðið gildi á meðan ráðstefnan stendur yfir.
Loftslagsráðstefnan verður frá 7. til 18. desember og þar á að reyna að ná samkomulagi um sáttmála sem taka á við af Kyoto-sáttmálanum.