Má bjóða þér ríflega tvö hundruð ára gamalt koníak? Kannski eina flösku sem tappað var á fyrir frönsku byltinguna? Veitingahúsið Tour d'Argent í París hefur ákveðið að bjóða upp 18 þúsund flöskur af besta koníaki hússins nú í desember.
„Ég veit ekki hvort ég hefði sjálfur ráð á að kaupa einhverjar af flöskunum," segir André Terrail, 29 ára, en hann er af þriðju kynslóð fjölskyldunnar sem rekur veitingastaðinn sem er talinn sá elsti í heimi og um leið sá þekktasti.
Þegar faðir Terrail lést fyrir þremur árum ákvað André að bjóða upp á sérstaklega ódýra rétti sem kostuðu einungis 160 evrur á mann, 30 þúsund krónur. Hins vegar kostar flaskan af góðu kampavíni enn yfir 2 þúsund evrur, 368 þúsund krónur.
AFP fréttastofan tekur fram að það sé alveg þess virði að sækja staðinn heim þó ekki væri nema til þess að renna yfir vínlista hússins. Yfir 15 þúsund víntegundir eru á listanum en hann er 8 kg og 400 blaðsíður. Vínkjallari Tour d'Argent þykir einn sá besti í heiminum og er þar að finna margar flöskur af sögufrægum vínum.