Franskur athafnamaður, sem keypti 221 árs gamla koníaksflösku á uppboði í París fyrir 25 þúsund evrur, jafnvirði 4,6 milljóna króna, segist ætla að drekka veigarnar sjálfur.
Boðnar voru upp flöskur úr vínkjallara veitingahússins Tour d'Argent í París og var uppboðið á flösku af Clos du Greffier koníaki frá árinu 1788 hápunkturinn. Það var Raphael Zir, sem auðgast hefur á netfyrirtækjum, sem hreppti flöskuna.
Ágóði af sölu koníaksflöskunnar rennur til góðgerðarmála Zir segist ætla að opna flöskuna og gæða sér á veigunum. Engar tryggingar eru hins vegar fyrir því að vínið sé drykkjarhæft.