Norskir geimvísindamenn telja, að einkennileg ljós, sem sáust á himninum yfir herstöð í Norður-Noregi hafi stafað af misheppnuðu eldflaugaskoti frá rússneskum kafbáti. Kenningar hafa einnig verið um að fljúgandi furðuhlutur hafi verið þarna á ferð, þó ekki jólasveinninn.
Kristoffer Rakoczy, sem vinnur í Skjold herstöðinni, náði þessum myndum af ljósaganginum. Hann lýsir honum svo, að fyrst hafi sést lítið ljós sem óx hratt og virtist síðan hverfa í svarthol.
Pal Brekke, norskur vísindamaður, segir að líklega hafi verið um að ræða flugskeyti, sem skotið hafi verið frá herskipi eða kafbáti í Norðurhöfum. Vitað er að Rússar eru að gera tilraunir með nýtt eldflaugavarnakerfi, sem nefnt er Bulava og rússnesk blöð segja, að eldflaugaskot hafi misheppnast á svipuðum tíma og ljósagangurinn sást.
Rússneski sjóherinn vildi ekki tjá sig um málið.