Leit er hafin að knattspyrnulandsliðs Afríkuríkisins Erítreu en leikmennirnir hafa ekki snúið heim eftir að hafa tekið þátt í móti í Kenýa.
Að sögn fréttavefjar BBC tók liðið þátt í Cecafa keppninni sem ætluð er fyrir þjóðir í Austur- og Mið-Afríku. Erítrea komst ekki í úrslit en þegar flugvélin, sem átti að flytja liðið heim, lenti í höfuðborginni Asmara voru aðeins þjálfarinn og liðsstjórinn með.
Ríkisstjórn Erítreu, sem oft er sökuð um kúgun, vísar því á bug að leikmennirnir hafi ekki skilað sér heim. En knattspyrnusamband landsins staðfesti við Nicholas Musonye, framkvæmdastjóra Cecafa keppninnar, að leikmennirnir væru horfnir.
Musonye sagði við BBC, að þetta væri í þriðja skipti sem knattspyrnulandslið Erítreu notar tækifærið og flýr land eftir knattspyrnumót í útlöndum. Hann segir ljóst, að liðið sé í Nairobi en þar búa margir Erítreumenn.
Sameinuðu þjóðirnar segja, að hundruð Erítreumanna flýi land í hverjum mánuði undan fátækt og kúgun öryggissveita ríkisstjórnarinnar. Stjórnvöld vísa þessu á bug og saka SÞ um að falsa tölur.