Tveir ástralskir brimbrettakappar eru í hálfgerðu áfalli eftir að þeir urðu vitni að því hvernig háhyrningar réðust að hópi höfrunga, köstuðu þeim upp í loftið og léku sér að þeim. Jamie Kidney var á brimbretti undan Eyre skaga með vini sínum Anton Storey þegar sjórinn varð skyndilega hvítfyssandi og „allt varð snarbrjálað".
„Þetta var algjört öngþveiti. Við sáum vatnið skvettast í allar áttir og svo flugu höfrungar upp í loftið, háhyrningar stukku á eftir þeim, gripu þá og slóu þeim frá sér," segir Kidney. „Við fylgdumst með hvölunum rífa höfrungana upp úr sjónum og slengja þeim til og frá og þetta hélt bara áfram og áfram endalaust, þetta var alveg ótrúlegt," bætir Storey við.
Þeir félagar áætla að um 100 höfrungar hafi orðið fyrir árásinni og segja þeir háhyrningana augljóslega hafa verið að leika sér að bráðinni áður en þeir drápu hana og átu. Líffræðingurinn Cath Kemper segir AFP að það sé „heldur óvenjulegt" að sjá háhyrninga ráðast á höfrunga svo skammt frá landi.
„Það gæti hugsast að þeir hafi komið í leit að skjaldbökum og þá rekist á höfrungana. Við höfum sannarlega heyrt af því að háhyrningar ráðist á seli með þessum hætti og ýmis önnur dýr en ekki endilega höfrunga samt."
Háhyrningar, sem á ensku heita drápshvalir eða killer whales, eru jafnan kallaðir úlfar hafsins þar sem þeir eru grimm rándýr sem éta nánast hvað sem að kjafti kemur, allt frá smokkfiskum til stórra sjávarspendýra.
Brimbrettakapparnir náðu atburðinum skiljanlega ekki á filmu en hér má sjá brot úr þáttaröð BBC, The Blue Planet, þar sem David Attenborough lýsir svipaðri hegðun háhyrninga sem ráðast á og leika sér með sæljón.