Enn einu sinni stendur jólageit stolt á torgi í miðbæ Gävle í Svíþjóð og bíður jólanna. Torgið er afgirt og þakið eftirlitsmyndavélum og búið er að úða geitina með sérstökum eldvarnarefnum, svo sterkum að hún er sögð þola eldsprengjuárás. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að geitin hljóti sömu örlög og margir forverar hennar, að vera brennd til kaldra kola.
Geit úr stráum hefur verið reist á Slottstorginu í Gävle í yfir fjóra áratugi og oftar en ekki hefur verið kveikt í henni fyrir jólin eða hún hefur lent í öðrum hremmingum. Hefur geitin aðeins sloppið ósködduð í 12 skipti. Síðustu árin hefur geitin verið úðuð með eldvarnarefni og virtist það duga en í fyrra tókst skemmdarvörgum að kveikja í henni 27. desember.
Kaupmenn í Gävle, sem er um 150 km norður af Stokkhólmi, reistu fyrstu jólageitina í desemberbyrjun árið 1966 og þetta sænska tákn jólanna. Sú geit var brennd og hafa geiturnar síðan verið nánast árlegur skotspónn skemmdarvarga. Flestar hafa geiturnar verið brenndar, sumar einungis nokkrum klukkustundum eftir að þeim var komið upp í fyrstu vikunni í desember.
Jólageitin 1976 varð fyrir bíl. Árið 1997 skemmdist jólageitin vegna flugelda. Oftast hefur þó verið kveikt í jólageitunum. Árið 2005 sást til jólasveins og sætabrauðsdrengs kveikja í geitinni en þeir náðust ekki.
Afar sjaldan hefur tekist að hafa hendur í hári skemmdarvarganna en það tókst þó meðal annars árið 2001. Þá viðurkenndi 51 árs gamall Bandaríkjamaður að hafa kveikt í geitinni á Þorláksmessu. Hann þurfti að dúsa í fangelsi í 18 daga fyrir vikið.
Hægt er að fylgjast með jólageitinni á Hallartorginu í vefmyndavél