Stöðugt fleiri Bretar komast á snoðir um ótryggð maka sinna á netinu. Samskiptavefurinn Facebook er nú nefndur í um fimmtungi allra skilnaðarmála á Bretlandi sem ástæða fyrir því að hjón vilja skilja að skiptum.
Breska blaðið Daily Telegraph segir, að fólk nefni í auknum mæli, að það hafi komist að því að makinn var að daðra með óviðurkvæmilegum hætti við aðra á Facebook. Eru hugbúnaðarfyrirtæki sögð nýta sér þessa þróun með því að bjóða forrit, sem gerir fólki kleift að njósna um netsiði makans.
Telegraph segir m.a. frá 35 ára gamalli konu, Emmu Brady, sem sá sér til mikillar undrunar að eiginmaður hennar var að skilja við hana og hafði breytt inngangstextanum á Facebook-síðu sinni á eftirfarandi hátt: Neil Brady hefur slitið hjónabandi sínu og Emmu Brady.
Á síðasta ári skildi Amy Taylor, 28 ára gömul kona, við David Pollard, eiginmann sinn, þegar hún komst að því að hann átti í sýndarástarævintýri við aðra konu í netleiknum Second Life þar sem spilarar búa sér til annan persónuleika. Pollard og konan í leiknum höfðu aldrei hist augliti til auglitis.