Breskri konu á fertugsaldri brá heldur betur í brún þegar hún teygði sig eftir banana rétt fyrir jólahátíðina. Á hýði hans mátti nefnilega finna andlit sem hún er fullviss um, að sé af Jesú Krist. Engu að síður át hún ávöxtinn en tók myndir af hýðinu.
Konan, Lisa Swinton, setti myndir af banananum inn á samskiptavefinn Facebook þar sem þær vöktu mikla athygli. Einn vinur Swinton taldi t.d. að myndin virtist fremur vera af apa. Breska dagblaðið Daily Telegraph greinir frá þessu.
Swinton er þó enginn nýgræðingur þegar kemur að sýnum á borð við þessa. „Einn vina minna segist hafa séð guðsmóðurina á hurð baðherbergis síns og annar sá henni bregða fyrir í myglu á gólfi sturtuklefans,“ segir Swinton sem er viss um að andlitsmyndin hafi ekki verið á banananum þegar hún keypti hann.