Tímaritið Vikan birtir í dag árlega völvuspá þar sem kemur m.a. fram, að völvan spáir því að gjaldeyrismálin verði komin í miklu betra horf í október að snjóflóð falli yrir vestan og annað fyrir norðan.
Þá spáir völvan því að spennandi tímar séu framundan og miklar þjóðfélagsbreytingar og kona komi fram á sjónarsviðið með róttækar hugmyndir og hlustað verði á hana. Þá segir völvan, að Davíð Oddsson muni skríða út úr púbu sinni og koma á óvart með yfirlýsingum sínum í febrúar.
Vikan segir, að völvan hafi reynst sannspá fyrir þetta ár en hún spáði m.a. stjórnarslitum og nýjum kosningum og að Samfylking og VG myndu fara í stjórnarsamstarf. Þá yrðu VG sveigjanlegri í sambandi við aðildarviðræður um Evrópusambandið og sá sveigjanleiki yrði í stjórnarsáttmálanum.
Völvan sagði líka að umræðan um Evrópusambandið ætti eftir að bögglast með þjóðinni fram eftir árinu en eftir kosningar yrði væntanlega sótt um aðild. Ekki yrði tekin upp ný mynt þrátt fyrir háværar kröfur, Bjarni Benediktsson yrði í stóru hlutverki fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tími Jóhönnu Sigurðardóttir væri kominn.