Stefnumóta- og samskiptasíðan BeautifulPeople.com hefur losað við um 5.000 notendur vegna kvartana um að þeir hafi bætt á sig yfir hátíðirnar. Þeir höfðu sett nýjar myndir af sér inn á síðuna og kvörtuðu aðrir notendur undan því að fólkið hefði fitnað.
Eina leiðin til að geta orðið skráður nýr notandi er ef núverandi notendur vefsíðunnar samþykkja þá sem sækja um. Eins og nafn síðunnar gefur til kynna þá er þetta vefur fallega fólksins, og aðeins þeir sem fá háa einkunn fyrir útlitið fá að vera með.
Flestir þeirra sem urðu fyrir öxinni koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada, að því er segir á fréttavef BBC.
Stjórnendur síðunnar hafa ávallt verið iðrunarlausir gagnvart valferlinu. Þeir segja að þetta sé stærsta samskiptanet fallegs fólks í heiminum, og væntanlega ekki af ástæðulausu.
Það eru notendur síðunnar sem hafa sjálfir eftirlit með henni og láta vita ef útlit einhvers hefur breyst, og fréttir herma að þrýstingurinn hafi komið frá þeim sjálfum um að „ólaglegum“ einstaklingum yrði sparkað.
„Sem fyrirtæki þá sjáum við ávallt eftir hverjum meðlim, en staðreyndin er samt sú að notendurnir krefjast þess fegurðarstaðallinn sé hár,“ segir Robert Hintze, stofnandi síðunnar.
„Það stríðir gegn gegn viðskiptahugmyndinni okkar og þeirri grunnhugmynd sem BeautifulPeople.com byggir á, að leyfa fitubollum að vera á síðunni,“ segir hann.