Kona sem festist í lyftu í fjölbýlishúsi í Sitges á Spáni, sem er skammt frá Barcelona, þurfti að bíða í átta daga eftir því að verða bjargað. Slökkviliðs- og lögreglumenn komu henni til aðstoðar í gær.
Konan, sem er 35 ára gömul, var með meðvitund en ringluð þegar hún fannst í einkalyftu í húsinu og var hún flutt á sjúkrahús til skoðunar.
Ættingjar konunnar, sem búa í höfuðborginni Madrid, höfðu samband við lögregluna eftir að þeir höfðu ekkert heyrt frá henni. Lögreglumenn fóru í fjölbýlishúsið og heyrðu í konunni kalla á hjálp.
Lögreglan segist ekki vita hvernig konan, sem býr ein, hafi náð að þrauka svona lengi.
Svo virðist sem að lyftan hafi stöðvast vegna rafmagnsbilunar.