Jaðaríþróttin parkour, sem á rætur að rekja til Frakklands, er farin að ryðja sér til rúms meðal ungmenna í Peking, höfuðborg Kína. Íþróttin þykir listræn og hefur notið vinsælda í stórborgum víða um heim, en hún byggir á hraða og lipurð.
Segja má að íþróttin byggi á því að komast á milli staða með óhefðbundnum aðferðum. Franska heitið parkour merkir „leið, braut, mörkuð slóð“. Íþróttinni er stundum líkt við bardagaíþróttir, s.s. kung fu.
Mörg hundruð hafa skráð sig í Kínverska parkour klúbbinn, sem er sá stærsti í landinu. Þjálfarinn Zhang Tianlin segir aðdráttarafl íþróttarinnar felast í slökunareiginleikum hennar.
„Lífið líður hratt áfram og það er mikil pressa, en parkour er mjög afslappandi og streitulosandi íþrótt. Hún slakar ekki aðeins á vöðvunum heldur einnig á huganum,“ segir Zhang.
Parkour á rætur sínar að rekja til ársins 1987 þegar hópur fimleikakappa hóf að prófa ýmis brögð og brellur á leikvelli í París. Á tíunda áratugnum fór íþróttina að njóta vinsælda um allan heim.