Orðabækur hafa verið fjarlægðar úr grunnskólum í suðurhluta Kalíforníu eftir að foreldrar kvörtuðu yfir því að skýringar á orðum sem tengjast kynferðismálum væru of berorðar.
Fram kemur á fréttavef Menifee, að 10. útgáfa orðabókarinnar Merriam Webster, sem hafi verið notuð undanfarin ár í 4. og 5. bekk í Menifee Union skólahverfinu, hafi verið fjarlægð úr skólunum vegna þess að ýmsar orðaskýringar í henni séu ekki hentugar fyrir 9 og 10 ára gömul börn.
Þetta var gert eftir að foreldri kvartaði yfir því, að barn hefði lesið skilgreiningu á orðinu munnmökum úr bókinni. Sú skilgreining hljóðar svo: Örvun kynfæra með munni.
Haft er eftir Betti Cadmus, talsmanni skólahverfisins, að verið sé að fara yfir orðabókina og meta hvort banna eigi notkun hennar alfarið í skólunum.
Þessi ákvörðun hefur valdið misjöfnum viðbrögðum foreldra á svæðinu. Sumir hafa fagnað ákvörðuninni en aðrir hafa lýst áhyggjum og segja að það sé alls ekki slæmt að börn fletti í orðabókinni upp á orðum sem þau heyra á leikvellinum.
„Einhvers staðar verður að draga mörkin," er haft eftir einum föður. Hvað ætla þeir að gera næst, banna alfræðiorðabækur vegna þess að þar er fjallað um líkamshluta, svo sem kynfæri?"