Bavíani nokkur í kínverskum dýrasirkus er orðinn alþýðuhetja í heimabæ sínum fyrir að aðstoða við að selja miða til gesta. Þetta kemur fram í frétt á vefnum ananova.org.
Bavíaninn heitir Chun Chun, sem útleggst sem Vor á kínversku. Hann leysir stundum mennska miðasalann af til að skemmta gestum.
Bavíaninn tekur við peningum og afhendir miða í staðinn – hann hefur jafnvel gefið til baka, að því er Ananova hefur eftir forsvarsmönnum dýragarðsins.
Temjari Chun Chuns segir að þrotlaus þjálfun sé að baki hæfileikum bavíanans til að vinna í miðasölunni, þar sem bavíanar séu ekki náttúrulega gáfaðir, eins og apakettir. Hann þarf mannlegan aðstoðarmann, þar sem hann á það til að ruglast í ríminu og neita að taka við öðrum seðlum en 100 yuan-seðlum. Þeir eru rauðir, sem er uppáhaldslitur Chun Chuns.
„Við ætlum að þjálfa hann frekar, til að hjálpa honum að telja og einnig til að lækna hann af fordómum gagnvart öðrum seðlum en rauðum,“ hefur Ananova eftir talsmanni sirkussins. ivarpall@mbl.is