Ástralskur bankastarfsmaður er í vondum málum eftir að til hans sást í beinni sjónvarpsútsendingu skoða myndir af hálfnakinni fyrirsætu í tölvunni sinni.
Sjónvarpsstöðin Channel 7 var að ræða við verðbréfasérfræðing hjá bankanum Macquarie Private
Wealth í beinni útsendingu. Fyrir aftan sást samstarfsmaður sérfræðingsins skoða myndir af fyrirsætunni Miröndu Kerr í tölvunni sinni en hann gerði sér augljóslega ekki grein fyrir því að til hans sást. Myndskeiðið var auðvitað sett á vefinn YouTube og hefur verið mikið skoðað þar.
Yfirmönnum bankans var hins vegar ekki skemmt og segjast munu taka hart á málinu.
Myndirnar af Kerr sáust greinilega í sjónvarpsútsendingunni. Það var ekki fyrr en viðtalinu var að ljúka, að bankamaðurinn leit upp og uppgötvaði að hann hafði sést í sjónvarpinu.
Að sögn ástralskra fjölmiðla hefur starfsmannastjórn Macquarie nú sent öllum 11.500 starfsmönnum bankans tölvupóst með reglum um netnotkun.