Dýragarðurinn í Melbourne kynnti á dögunum fyrsta fílsungann sem fæðist í 148 ára sögu dýragarðsins. Aðeins einu sinni áður hefur fíll komið í heiminn í áströlskum dýragarði.
Fjölmiðlamönnum var boðið að fá forskot á sæluna og berja litla fílinn, sem er kvenkyns og hefur enn ekki fengið nafn, augum á undan almenningi. Á morgun verður almennum dýragarðsgestum hinsvegar hleypt að henni og má gera ráð fyrir að aðsóknin verði mikil eins og jafnan er þegar ungviði fæðist í dýragörðunum. Hún verður aðeins höfð til sýnis í stutta stund í einu til að byrja með á meðan hún venst því að vera í sviðsljósinu.
Starfsmenn dýragarðsins segja að fílsunginn, sem fæddist þann 16. Janúar, drekki á bilinu 12 til 14 lítra af mjólk frá móður sinni á dag og bæti um leið daglega á sig einu til tveimur kílóum.