Flatlús er nú talin vera í útrýmingarhættu í Danmörku. Helsta ástæðan er eyðing helsta kjörlendis lúsarinnar, þ.e. skapa- og kynfærahára, en rakstur þeirra er orðinn útbreiddur, ekki síst meðal kvenna. Kynsjúkdómadeild spítalans í Bispebjerg segir að þar sjáist vart flatlús lengur.
Vefsíða Jyllands Posten segir að engar opinberar tölur séu til um útbreiðslu flatlúsar í Danmörku. Hún ferðast aðallega á milli fórnarlamba við kynmök en getur þó smitast með handklæðum, sængurfatnaði og fötum.
Yfirlæknir á fyrrnefndri kynsjúkdómadeild segir að tilfellum klamydíu, kynfæravarta og annarra kynsjúkdóma fjölgi. Því sé eina skýringin á fækkun flatlúsa að kjörlendi þeirra sé óðum að hverfa.
Danskur lúsafræðingur segir að sér gangi illa að útvega flatlýs til rannsókna. „Það getur enginn útvegað þær. Það má segja að þegar skóginum er eytt geta dýrin ekki lifað þar lengur,“ sagði lúsasérfræðingurinn.