Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur ákveðið að konur fái að vera í áhöfnum kafbáta. Þingið í Washington hefur 30 daga frest til að samþykkja það eða hafna.
Robert Gates varnarmálaráðherra hefur formlega tilkynnt þinginu um ákvörðun sína. Hún er tekin eftir að yfirmaður bandaríska heraflans, George Casey hershöfðingi, hafði lagt blessun sína yfir áform ráðuneytisins.
Casey svaraði fyrirspurnum þingnefndar í gær þann veg, að tími væri til kominn að endurskoða reglur er takmörkuðu hlutverk kvenna eða útilokuðu þær frá framlínusveitum bandaríska heraflans.
Af mannafla bandaríska flotans eru 15% hans konur. Þær hafa starfað við hlið karlmanna í flugvélum flotans og á öðrum herskipum en kafbátum frá 1993.
Talið er að ár muni líða a.m.k. áður en fyrstu konurnar fara um borð í kafbáta sem skipverjar. Bæði þurfi þær að undirgangast sérstaka þjálfun áður og ennfremur verði að breyta vistarverum til að skilja kynin að neðansjávar.