Sænskur réttindalaus flugmaður var handtekinn í Amsterdam í þann mund sem hann var að leggja af stað undir stýri Boeing 737 farþegaþotu með 101 farþega innanborðs áleiðis til Tyrklands.
Á fréttavef BBC er haft eftir lögreglu í Hollandi, að maðurinn, sem er 41 árs að aldri, hafi flogið farþegaflugvélum fyrir evrópsk flugfélög í 13 ár og eigi um 10 þúsund flugtíma að baki. Maðurinn tók einkaflugmannspróf á sínum tíma en það var löngu útrunnið.
Að sögn hollenskra fjölmiðla var manninum mjög létt þegar upp komst um hann og hann reif flugmannseinkennismerkin af jakka sínum.
Corendon flugfélagið í Tyrklandi staðfesti, að maðurinn hefði starfað á þess vegum í tvö ár eftir að hafa framvísað fölsuðum skjölum.
Lögreglan í Hollandi sagðist hafa fengið ábendingu um flugmanninn frá lögreglu í Svíþjóð. Maðurinn er nú í varðhaldi og bíður dóms fyrir skjalafals og að fljúga flugvélum án leyfis.