Fjölskylda í New Jersey í Bandaríkjunum eyddi mörgum klukkustundum í að búa til líkneski af Venus frá Milo úr snjó í garðinum framan við hús sitt. Nokkrum dögum síðar bankaði lögreglan á dyr og krafðist þess að snjókellingin yrði klædd í föt þar sem hún særði blygðunarkennd nágranna.
Elisa Gonzalez mótaði styttuna úr snjó framan við hús sitt í Rahway og segir að listaverkið hafi strax slegið í gegn.
„Það var mjög fallegt. Við vöktum mikla athygli nágrannanna og sumir komu og tóku myndir og töluðu við okkur," segir hún við AFP fréttastofuna.
En snjóverkið fór greinilega fyrir brjóstið á einum nágrannanum. „Við fengum heimsókn frá lögreglumanni, sem sagði að nágranni hefði kvartað. Lögreglumaðurinn sagði að annað hvort yrðum við að brjóta styttuna niður eða klæða hana í föt," segir Gonzalez. „Við vildum ekki valda vandræðum svo við huldum hana."
Styttan af Venusi frá Milo er í Louvre safninu í París. Það verk sýnir einnig nakta konu og handleggirnir hafa brotnað af styttunni en höfuðið er á sínum stað.