Bandaríska verslunarkeðjan Walmart var nýverið sökuð um ónærgætni í garð hörundsdökkra eftir að í ljós kom að hörundsdökk Barbie-dúkka var seld á lægra verði en hefðbundin Barbie. Sérfræðingar telja mikilvægt að verslunarkeðjan geri hinni hefðbundnu Barbie ekki hærra undir höfði.
Bandaríska fréttastofan ABC tekur málið upp og segir að það megi rekja til ljósmyndar sem dreift var á netinu. Á myndinni má sjá augljósan verðmun í Walmart í Louisiana á hörundsdökkri Barbie sem stillt var upp við hlið hefðbundinnar Barbie. Fyrir hina hörundsdökku, sem var á afslætti, þurfti viðskiptavinur að greiða þrjá dollara, 385 kr., en helmingi meira fyrir hina hefðbundnu.
ABC fréttastofan ræddi við fulltrúa Walmart sem segir eðlilegar skýringar á verðmuninum. Verið var að rýma fyrir nýjum vörum og verðið miðist við birgðastöðu.
Sérfræðingar sem rætt er við segja hins vegar að verslunarkeðjan sýni ónærgætni í garð hörundsdökkra með slíkum afsláttarkjörum. Einn slíkur segir að, þó svo það sé ekki með vilja gert sé verið að gengisfella hörundsdökku dúkkuna og það geti haft í för með sér ófyrirséðar afleiðingar.
Annar bendir á Walmart hefði frekar átt að sjá, hversu mikilvægt það er að senda ekki út skilaboð út í samfélagið að verslunarkeðjan líti hörundsdökka öðrum augum en hvíta.