Sjúklingar á réttargeðsjúkrahúsinu Sikringen á Sjálandi í Danmörku mega nú kaupa sér sælgæti og gosdrykki eins og þá lystir. Danska útvarpið greinir frá því að spítalinn hafi fallið frá umdeildu sætindabanni sem þar var í gildi.
Samkvæmt sætindabanninu mátti hver sjúklingur einungis neyta 700 gramma af sælgæti og eftirréttum á hverri viku. Gosdrykkir með sykri voru stranglega bannaðir.
Rök stjórnenda sjúkrahússins voru þau að vegna lyfjanotkunar gætu sjúklingarnir ekki haft stjórn á neyslu sinni á sætindum. Sjúklingarnir og ættingjar þeirra sættu sig ekki við það og kærðu bannið til umboðsmanns. Þeir vildu fá að ráða því sjálfir hvað og hve mikið þeir borðuðu.