Lögreglumenn í New York hafa gefið eldri hjónum í Brooklyn ostaköku samhliða því að biðjast afsökunar á því að hafa ítrekað raskað ró þeirra vegna mistaka sem rekja má til villu í tölvukerfi.
Á síðustu átta árum hefur lögreglan barið að dyrum hjá Walter og Rose Martin um 50 sinnum. Á þriðjudaginn börðu lögreglumenn að dyrum hjá þeim og kölluðu: „Lögreglan, opnið dyrnar.“
Hjónin, sem eru 82 og 83 ára gömul, tóku lögreglumönnunum vel þegar þeir komu með ostakökuna og sýndu þeim myndir af barnabörnum sínum.
Ástæðan fyrir því að lögreglan er sífellt að banka upp á hjá hjónunum er að árið 2002 notaði lögreglan heimilisfang hjónanna sem prufu þegar verið var að taka nýtt tölvukerfi í notkun. Hjónin lögðu fram kvörtun árið 2007, en tölvukerfið hefur samt haldið áfram að senda lögreglunni skilaboð um að nauðsynlegt sé að banka upp á hjá hjónunum. Tölvusérfræðingar lögreglunnar hafa reynt að leiðrétta villuna en hún heldur áfram að koma upp.