Það er ýmislegt sem samskiptavefurinn Facebook ber ábyrgð á. Greint er frá því á vef breska dagblaðsins Telegraph að sérfræðingar telji að aukinn fjöldi sárasóttartilfella megi rekja til Facebook. Það þýðir samt ekki að notendur Facebook geti smitast af kynsjúkdómi við það eitt að fara inn á vefinn.
Greindum tilfellum sárasóttar hefur fjölgað mjög í Sunderland, Durham ov Teesside, þeim svæðum í Bretlandi þar sem Facebook hefur náð mestum vinsældum. Segja sérfræðingar á heilbrigðissviði að það megi rekja til þess að Facebook sé nýr vettvangur kynlífs-skyndikynna.
Hefur Telegraph eftir Peter Kelly, framkvæmdastjóra heilsugæslunnar í Teesside, að starfsfólk heilsugæslunnar hafi fundið tengsl á milli Facebook og fjölda tilfella sárasóttar, einkum meðal ungra kvenna.
Sárasótt (syphilis) er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema pallidum.
Bakterían sem veldur sárasótt smitar við óvarin kynmök. Sýktir einstaklingar eru aðallega smitandi þegar þeir eru með sár. Áður fyrr óttaðist fólk sárasótt mest allra kynsjúkdóma.Hér á landi hefur hún verið frekar sjaldgæfur sjúkdómur en þó greinast fáeinir á ári. Þá er oftast um gamalt smit að ræða og einstaklingarnir því ekki smitandi, samkvæmt því sem fram kemur á vef landlæknisembættisins.
Upplýsingar um sárasóttSjá frétt Telegraph í heild hér