Aðeins á síðustu fimm hundruð árum hafa karlmenn getað eignað sér heiðurinn af bruggun bjórs, svo einhverju nemi. Fyrir þann tíma var það hlutverk konunnar sem húsfreyju að brugga manni sínum mjöðinn og hluti af húsverkunum. Þetta segir Jane Peyton, sagnfræðingur og rithöfundur, í viðtali við breska dagblaðið Daily Mail.
Peyton segir að kvenmenn hafi átt þátt í framleiðsluferlinu frá því bruggun bjórs hófst, 7.000-9.000 árum fyrir Krist. Og á Bretlandi hafi húsfreyjur bruggað ofan í fjölskyldur sínar á miðöldum, hvort sem var börn eða menn, enda vatnið oft á tíðum mjög mengað.
„Í þúsundir ára hafa kvenmenn bruggað bjór. Það var hluti af matarræði fólks og því einn þáttur húsverka konunnar,“ segir Peyton og bætir við „Eflaust er það karlmönnum áfall, en þeir eiga konum bjórinn að þakka.“
Í kjölfar þess að bruggun bjórs færðist út af heimilinu og í verksmiðjur komu karlmenn fyrst að málum og hafa því sem næst eignað sér heiðurinn síðan.