Breska blaðið Daily Telegraph segir, að síðustu daga hafi ýmsar fréttaþjónustur sent frá sér ýmsar einkennilegar fréttatilkynningar, sem kunni að tengjast mánaðamótunum.
Þar á meðal eru fréttir um ísbjörn á eyjunni Mull, krabba sem gengur áfram en ekki til hliðar og tilboð matsveina á Hótel Holti um að elda mat við hraunjaðarinn á Fimmvörðuhálsi.
Vísað er í fréttir um að matsveinarnir hafi farið að hrauninu í sérútbúnum jeppum til að undirbúa málsverðinn en gestirnir hafi komið í þyrlu og sest að veisluborðum, sem svignuðu undan fiskisúpu, grilluðum humri, skötusel og kjúklingabringum. Þessu var skolað niður með Veuve Clicquot kampavíni.
Það er hins vegar staðreynd, að málsverðurinn fór fram 30. mars og gestirnir tveir, sem nutu veislunnar, greiddu 60 þúsund krónur hvor fyrir herlegheitin en fengu gosdrunurnar í kaupbæti.