Biskup kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi hefur beðist afsökunar á framferði kaþólsk prests sem mætti drukkinn í jarðarför sem hann átti að stýra og kýldi einn syrgjenda í andlitið við athöfnina.
„Faðir Bonaventure ... mætti í jarðarförina í ástandi sem ekki hæfir stöðu hans,“ er haft eftir Robert Le Gall erkibiskup í yfirlýsingu. „Ég bið fjölskyldu hins látna enn og aftur afsökunar.“
Ættingjar hins látna hafa lýst því hvernig þeir reyndu að meina prestinum, sem ættaður er frá Burkina Faso í Vestur-Afríku, að jarðsyngja hina látnu. Athöfnin fór fram í borginni Toulouse í suðvesturhluta landsins.
Að athöfn lokinni reyndu ættingjarnir að koma í veg fyrir að presturinn settist undir stýri, enda var hann sauðdrukkinn. Við það féll hann í götuna. Þegar reynt var að hjálpa honum á fætur kýldi hann manninn, sem hugðist aðstoða hann, í andlitið.
„Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins, þ.e. að prestur gangi í skrokk á sóknarbörnum sínum, né heldur að prestur mæti undir áhrifum í kirkjulegar athafnir,“ segir Gerard Tillier, bróðir hinnar látnu.