Kaupsýslumaður á Filippseyjum hefur sagt sig úr stjórn styrktarfélags Ateneo de Manila háskólans eftir að hann varð uppvís að því að halda ræðu í háskólanum þar sem blandað var saman tilvitnunum í Barack Obama, Bandaríkjaforseta, Harry Potter bækurnar og sjónvarpskonuna Oprah Winfrey án þess að geta neinna heimilda.
Fram kemur á fréttavef BBC, að kaupsýslumaðurinn, Manuel Pangilinan, hafi hætt í stjórninni eftir að ljóstrað var upp um hann á samskiptavefnum Facebook. Viðurkenndi hann að hafa fengið lánaða ýmsa kafla hér og þar þegar hann samdi ræðu sína.
Pangilinan, sem áður hefur talað fjálglega yfir námsmönnum um siðferði og heiðarleika, segist hafa sagt af sér til að skaða ekki háskólann. Í yfirlýsingu, sem birtist á vef skólans, segist kaupsýslumaðurinn hafa fengið aðstoð voð ræðusmíðina en hann axli ábyrgð á endanlegu ræðunni.
Pangilinan stýrir meðal annars stóru símafélagi á Filippseyjum.