Fjórir slökkvibílar voru sendir í snatri að heimili Tonys Blairs, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, um helgina þegar brunaviðvörunarkerfi fór af stað. Ástæðan fyrir því var óhapp sem varð þegar Blair og Cherie kona hans voru að fá sér morgunmat.
Að sögn breskra fjölmiðla voru þau hjón að rista brauð og reykurinn olli því að brunavarnakerfið fór í gang. Slökkviliðið beið ekki boðanna og sendi strax bíla af stað að húsinu í Wotton Underwoods enda er húsið á lista yfir friðuð hús.
Cherie hringdi í slökkviliðið til að láta vita að engin hætta væri á ferðum en það var of seint og slökkviliðsbílarnir komu að húsinu skömmu síðar. Sagði talsmaðurinn, að þetta hefði verið frekar vandræðalegt allt saman en Blair-hjónin hefðu verið slökkviliðsmönnunum afar þakklát.
Talsmaður slökkviliðs Buckinghamshire sagði við breska útvarpið BBC, að hjónin hefðu fengið ráðleggingar um brunavarnir.