Þeim er bannað að tyggja tyggjó í vinnunni og nú á að mæla þann tíma sem það tekur þá að fara á klósettið með skeiðklukku. 540 starfsmenn Ikea-verslunar utan við Mílanó á Ítalíu hafa fengið nóg og hafa nú farið í verkfall.
„Við mótmælum því viðhorfi stjórnenda sem setur svo mikla pressu á starfsmenn,“ segir Massimo Aveni, ritari verkalýðsfélagsins Uiltucs við Bloomberg-fréttaveituna. Segir hann áreitið sem starfsmenn sæta svo mikið að þeir þjáist af óttaköstum og svima.
Verkfallið hófst á föstudag og í dag funda yfirmenn með starfsfólki til að finna lausn á deilunni, sem yfirmenn Ikea hafa lýst sem „sameiginlegum misskilningi.“
„Það gilda sömu reglur í öllum 16 Ikea-verslununum á Ítalíu og það er hið heilbrigða viðhorf að viðskiptavinurinn er í fyrsta sæti,“ sagði í svari Ikea til Bloomberg.
Í ítalska dagblaðinu Corriere della Serra benda talsmenn Ikea þó á að miklir árekstrar hafi orðið í Ikea-versluninni rétt utan við Mílanó sem geri málin verri.