Stúdentar við háskóla í Nepal, sem biðu eftir niðurstöðum úr vorprófum þurfa líklega að bíða öllu lengur. Í ljós kom nýlega að rottur höfðu étið fjöldan allan af prófaúrlausnunum.
Farið hafði verið með hunduð prófa nemenda við Tribhuvan háskólann í Katmandú á næstu lögreglustöð til að tryggja að enginn hefði aðgang að gögnunum. Fyrir mistök var prófunum hins vegar komið fyrir í geymslu sem rottur höfðu gert sig heimakomnar í.
„Prófin voru haldin fyrir tveimur og hálfum mánuði síðan. Við geymdum svörin í öruggri geymslu. En fyrir nokkrum dögum síðan uppgötvuðum við að rottur voru búnar að borða einhver þeirra,“ sagði Ram Prakash Chaudhary lögregluvarðstjóri.
„Við létum háskólayfirvöld strax vita af vandanum, en þau komu ekki fyrr en í dag eftir að fréttirnar láku út til að sækja prófin.“
Nepalskt dagblað segir prófin hafa verið geymd í gamalli byggingu með lekum lögnum og sakar Tribhuvan háskólann, sem er stærsti og elsti háskóli landsins, um fullkomna vanrækslu.
Háskólayfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um málið.