Eldgosið í Eyjafjallajökli og afleiðingar þess hafa orðið ugluspeglum víða um heim tilefni til að búa til brandara. Þessir brandarar eru misgóðir eins og gengur en á vef breska blaðsins Daily Telegraph í dag er listi yfir 10 bestu (og verstu) eldfjallabrandarana sem ganga þessa dagana á netinu.
Sumir eru illþýðanlegir á íslensku og eru lesendur því beðnir um að taka viljann fyrir verkið.
- Það er of snemmt að segja eldfjallabrandara um Ísland. Við verðum að leyfa rykinu að setjast.
- Ég sé að Bandaríkjamenn hafa lýst yfir stríði gegn Íslandi. Svo virðist sem þeir saki Íslendinga um að búa yfir „öskueyðingarvopnum" (weapon of ash eruption).
- Það var hinsta ósk íslenska hagkerfisins, að ösku þess yrði dreift yfir Evrópu.
- Ísland fer á hausinn og kveikir síðan í sér. Þetta lyktar af tryggingasvikum.
- Ísland, við báðum um peninga ekki ösku (cash, not your ash).
- Þjónn, það er eldfjallaaska í súpunni minni. Ég veit, það er flug(u)bann (no-fly zone).
- Richard Curtis vinnur að nýrri rómantískri gamanmynd um fólk fast á flugvelli sem verður ástfangið. Vinnuheitið er Lava Actually.
- Þegar ég kom út úr húsinu í gær lenti poki með frosnum pylsum, súkkulaðiís og fiskifingrum á hausnum á mér. Ég taldi ljóst að þetta væri ofanfall frá Íslandi.
- Eldfjall á Íslandi! Hvað kemur næst, jarðskjálftar í Asda? (Asda er bresk verslunarkeðja líkt og Iceland).
- Ég vaknaði í morgun og sá að það var þykkt ryklag yfir öllu í húsinu og lykt af brennisteini. En það er bara eins og venjulega, ég er búin að vera gift sama lata slóðanum í 20 ár.